Fyrirkomulag
Ef þú hefur aldrei farið í markþjálfun eða handleiðslu af neinu tagi vil ég hjálpa þér fyrstu skrefin.
Á staðnum þar sem við hittumst þarf að vera næði. Ég bið þig að slökkva á símanum þínum og ég slekk á mínum. Þessar mínútur sem við vinum saman viljum við ekki að fólk hringi, banki eða komi inn.
Fyrstu spurningarnar sem þú færð verða almenns eðlis, hvernig þú hafir það, hvernig þér líði, hvernig gangi og hvað þér liggi á hjarta. Þegar það er eitthvað eitt sem þú vilt ræða sérstaklega er gott að hafa hugsað það fyrir fram. Eftir því sem þú lest lengra þá muntu fá hugmyndir um hvað geti verið gagnlegt og hjálplegt að tala um.
Sem stjórnandi á vinnustað þarftu að taka margar erfiðar ákvarðanir. Það er ekki alltaf hægt að gera öllum til hæfis og stundum geta starfsmenn verið óbilgjarnir. Langvarandi álag í starfi eykur hættu á kulnun. Það er gagnlegt fyrir stjórnendur að þekkja einkenni kulnunar því að það er óþarfi að ganga þannig fram af sér að maður verði veikur þegar það eru til aðferðir og leiðir til að komast hjá kulnun. Ef þetta er eitthvað sem á við þig þá get ég hjálpað þér. Þegar stjórnandi vill ná lengra og setja sér háleit markmið þá getur skipt máli að vinna sig út úr fortíðinni og öllu því sem hefur íþyngt manni og getur fellt mann.
Áður en þú kemur í fyrsta tíma langar mig að biðja þig að íhuga eftirfarandi spurningar. Þú þarft ekki að skrifa svörin hjá þér, en hugleiddu hvort þetta sé eitthvað sem eigi við þig og þú viljir ræða. Ef þér finnst þetta ekki eiga við þig þá eru fleiri uppástungur aftar.
1. Hvaða manneskja, atburður eða aðstæður koma upp í huga þinn þegar þú hugsar um
hvað hafi íþyngt þér í starfi þínu?
2. Hvernig líður þér þegar þú hugsar um þessa manneskju, atburð eða aðstæður?
3. Hvernig var málinu háttað?
4. Hver var þín aðkoma að málinu?
5. Hvað myndirðu gera öðruvísi ef þú værir á byrjunarreit í þessum aðstæðum?
6. Hvaða áhrif hefur þessi reynsla haft á þig?
Eins og framar er getið er fulls trúnaðar gætt og þagnarskyldu sem endist allt lífið. Ef þessar spurningar ganga nærri þér og þú treystir þér ekki til að ræða þær þá er það allt í lagi af minni hálfu. Þetta er eingöngu hugsað til að hjálpa þér. Þú velur umræðuefnið.
Gagnlegar upplýsingar um markþjálfun
Með auknum vinsældum markþjálfunar hafa margar spurningar og vangaveltur vaknað varðandi markþjálfun sem hér verður leitað svara við.
Markþjálfun er gagnleg til að styðja einstaklinga við að finna styrkleika sína, ná markmiðum sínum, takast á við breytingar, jafnvel erfiðar tilfinningar, einfalda líf sitt, finna fyrir hvað hjartað slær, uppgötva leynda hæfileika og getu og finna kjarkinn til að setja sér markmið og leiðir að því. Stjórnendamarkþjálfun hentar stjórnendum og leiðtogum í hvaða fyrirtæki og stofnun sem er. Stjórnendamarkþjálfun getur verið langt lærdómsferli, en það skilar árangri. Markþjálfun innan fyrirtækja og stofnana hefur leitt til aukinnar verðmætasköpunar, minni starfsmannaveltu, færri fjarvista, aukinnar starfsánægju, skýrari markmiða, aukinnar ánægju viðskiptavina, aukinnar leiðtogahæfni, betri vinnustaðamenningar, minni sóunar, bættra samskipta, betri teymisvinnu og sköpunargleði. Markþjálfun hefur leitt til aukins trausts, heiðarleika, gegnsæis og minni streitu. Kostnaðurinn sem fyrirtæki hafa lagt í við markþjálfun hefur skilað sér.
Hvernig fer markþjálfun fram?
Markþjálfunin fer þannig fram að markþeginn hefur ákveðið áður en hann hittir markþjálfann hvað hann vilji ræða. Síðan spyr markþjálfinn opinna spurninga sem eru ekki rétt/rangt spurningar, heldur spurningar um möguleika, styrkleika, veikleika, viðhorf, sjónarmið, hindranir, ógnanir, tækifæri og leiðir. Á markvissan hátt finnur markþeginn svörin hjá sjálfum sér. Markþjálfi og markþegi koma sér saman um hvernig árangur er mældur af samstarfi þeirra. Þeir sem hafa verið mjög ánægðir hafa gefið leyfi fyrir að vitnað sé í þá á heimasíðu markþjálfa.
Það sem markþjálfinn gerir er að hlusta af athygli, hann spyr spurninga, sýnir stuðning og skilur óttann eða hindranirnar sem markþegi getur staðið frammi fyrir. Hann getur líka komið auga á tækifærin, styrkleikana og hjálpað markþeganum að koma auga á hluti sem honum voru huldir. Markþjálfinn getur ýmist skorað á markþegann eða hvatt hann til dáða. Markþjálfinn er í liði með markþeganum. Hann er þjálfarinn hans, stuðningsmaður, kletturinn, samstarfsmaður og áttavitinn.
Hvernig endum við?
Öllu er afmörkuð stund og það gildir einnig um tengsl markþjálfa og markþega. Þegar markþegi er orðinn ánægður með þann árangur sem hann hefur náð, markmið sín og leiðir, er tímabært að huga að nýrri stefnu með nýja þekkingu og verkfæri í pokahorninu á eigin spýtur.
Árlega er markþegum boðið á kynningarfund með stuttum fyrirlestri og upplýsingum um nýjungar í þjónustunni. Til kynningarfundar er boðað með tölvupósti. Það er því mikilvægt að netfangið þitt sé rétt skráð á póstlistann á www.sigur.is
Mörgum markþegum hefur fundist gott að bóka endurkomutíma eftir þrjá, sex eða níu mánuði til að halda sér á réttri braut. Hægt er að bóka tíma á www.sigur.is, með því senda póst á dogg@sigur.is eða bóka endurkomutíma í lokatímanum. Markþegum er að sjálfsögðu alltaf velkomið að koma með ný umhugsunarefni til markþjálfa og hefja leikinn að nýju.
Saman gerum við heiminn betri.
