top of page

Einvera – einföld leið til agastjórnunar

Fjalar Freyr Einarsson

6. september 2024

Einvera er aðferð sem notuð er til að stöðva óæskilega hegðun hjá börnum með því að fjarlægja þau tímabundið úr þeim aðstæðum sem hegðunin á sér stað í. Aðferðin sem er nátengd „kælingu“ er oft notuð með börnum á aldrinum tveggja til tólf ára. Þegar barn sýnir óásættanlega hegðun fær það aðvörun og talningin hefst. Fyrst er sagt „einn„ þegar brotið á sér stað (sé það ekki alvarlegt). Ef barnið breytir ekki hegðun sinni, fer talningin upp í „tvo“ og loks „þrjá“ ef hegðunin heldur áfram. Þá er sagt: „Einvera“, „pása“ eða annað sem þykir henta og barnið fer sjálft eða er leitt á fyrirfram ákveðinn stað, til dæmis á stól eða í herbergi sitt.


Markmiðið með aðferðinni er ekki að skilja barnið eftir eitt, heldur að koma því úr aðstæðunum og gefa því tíma til að róa sig. Foreldrið getur setið hjá barninu í einverunni svo það finni sig ekki eitt og yfirgefið og til að skapa rými fyrir ró og yfirvegun. Í þessu samhengi getur einveran verið tækifæri fyrir foreldrið að ræða rólega við barnið, hjálpa því að átta sig á mistökum sínum og læra að sýna ekki sömu hegðun.


Ef foreldrarnir eru sjálfir í uppnámi er ekki rétti tíminn til að ræða við barnið. Þá þurfa foreldrarnir sjálfir að gefa sér tíma til að róa sig og ná áttum áður en þeir gefa sér tíma til að ræða atvikið við barnið sitt.


Helsti kosturinn við einveru er sá að allir fá tækifæri til að stíga út úr aðstæðum og róa sig. Barnið fær tækifæri til að hugsa um hegðun sína og foreldrið fær tíma til að bregðast við á yfirvegaðan hátt. Þegar einverunni lýkur er ekki þörf á frekari áminningum, svo lengi sem barnið skilur hvers vegna það var tekið úr aðstæðunum.


Einveru ætti ekki að nota sem refsiúrræði fyrir allt sem fer úrskeiðis. Aðferðin hentar best þegar stöðva þarf tiltekna hegðun sem er skýrt skilgreind, en ekki þegar barnið t.d. neitar að gera hluti svo sem að taka upp dótið sitt eða sinna heimanámi. Mikilvægt er að velja tiltekinn hegðunarvanda til að vinna með. Jafnframt ætti alltaf að vera markmið að styrkja jákvæða hegðun og hjálpa barninu að læra að hegða sér á æskilegan hátt í stað þess að einblína eingöngu á að stoppa óæskilega hegðun.


Einvera, þegar rétt notuð, er örugg og áhrifarík aðferð til að móta hegðun barns. Mikilvægt er þó að leggja áherslu á að hún sé hluti af heildrænni nálgun þar sem jákvæð hegðun er einnig styrkt.

bottom of page