top of page

Samvinna sem styrkir sambandið

Einar Aron Fjalarsson Fossberg

19. nóvember 2024

Gott heimilishald er ekki allra tebolli. Fólk býr yfir mismunandi styrkleikum og ekki allra að halda heimilinu bæði þrifanlegu og snyrtilegu, sinna viðhaldi, elda ofan í mannskapinn og annað sem felst í því að reka heimili. Hugtakið þriðja vaktin hefur annað slagið verið áberandi í samfélagsumræðunni og hafa rannsóknir sýnt fram á að konur standa vaktina yfirleitt að lang mestu, ef ekki öllu leiti einar. Vaktinni lýkur aldrei og getur haft mikla streitu í för með sér. Því viljum við breyta.


Pör hafa því mörg hver skipt verkefnum á milli sín, annað hvort þar sem annar aðilinn á sína daga og hinn sína eða annar á þessi verkefni og hinn þessi. Þú sérð um að elda í dag, ég geng frá eftir matinn og við víxlum á morgun eða þú skúrar stofuna alla sunnudaga og ég skipti um á rúminu og þurrka af.


Þó svo að það að skipta heimilisverkum jafnt á milli aðila hafi marga kosti er það ekki útgangspunkturinn. Jöfn verkaskipting minnkar vissulega álagið sem fylgir því að halda heimili. Það er þó samvinna og jafnvægi sem styrkir sambandið hvað mest. Þeir sem vinna saman að sameiginlegu markmiði öðlast betri skilning á vinnuframlagi hvors annars og virða það í meiri mæli. Það getur einnig skapað jákvætt andrúmsloft þar sem báðir aðilar upplifa jafnvægi og samstöðu í sínum hlutverkum.


Það sem er þó mikilvægast er að halda verkaskiptingunni sveigjanlegri því lífið getur verið óútreiknanlegt. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um heimilið okkar. Tímabundið álag vegna veikinda, vinnuálags eða verkefnaskila í skóla getur komið upp hjá okkur öllum og er eðlilegt að það kalli á endurskipulagningu. Maki okkar mætir tímabundnum aðstæðum okkar með skilningi með því að sinna stærri hluta heimilishaldsins, það ættum við líka að gera fyrir makann okkar. Við getum líka verið á milli starfa. Maki okkar mætir til vinnu en við sitjum heima að leita að vinnu. Það kallar líka á endurskipulagningu. Eðlilegt er að ég sinni fleiri hlutum heimilishaldsins ef ég er án verkefna og heima í margar vikur að bíða eftir atvinnuviðtali. Ég hef þá alveg tíma til að skella í nokkrar þvottavélar og þrífa baðherbergið. Komum til móts við maka okkar í þeirra kringumstæðum hverju sinni.


Ef annar aðilinn sér um stærstan hluta heimilishalds getur það auðveldlega leitt til pirrings og óánægju. Hins vegar getur samvinna dregið úr streitu og álagi og styrkt sambandið og samskipti ykkar á milli á ýmsa vegu. Þakklæti eykst og samstaðan verður meiri. Það skapar jafnvægi og eykur skilning á því hversu mikilvægt hvert verk er. Rannsóknir sýna að pör sem deila verkefnum jafnt eiga auðveldara með að viðhalda sátt og samlyndi. Það stuðlar að hamingju allra á heimilinu.


Þá má taka verkaskiptinguna til umræðu annað slagið til að forðast það að staðna í okkar hlutverkum. Munum líka að verkefni eru ekki skilyrt hefðbundnum kynjahlutverkum. Við hjálpumst bara að, sama hvert verkefnið er. Með því að hjálpast að á heimilinu sköpum við ekki bara jafnvægi, heldur líka rými fyrir gleði og samstöðu – því sterkari pör byggja sterkari heimili. Börnin læra líka það sem fyrir þeim er haft.

bottom of page