Um ráðgjöfina
Atferlisgreining er einstaklingsmiðuð nálgun í umönnun þar sem einstaklingi er mætt þar sem hann er, eins og hann er og hver og ein íhlutun er einstaklingsmiðuð. Markmiðið með aðkomu atferlisfræðings á hjúkrunarheimili er að bæta lífsgæði íbúa og styðja við starfsfólk til að svo megi verða. Varnarviðbrögð íbúa sem algeng eru hjá einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma og bitna gjarnan á starfsfólki eru dæmi um hegðun þar sem aðkomu atferlisfræðings getur verið þörf.
Hlutverk atferlisfræðingsins er að finna út hver sé orsök hegðunarinnar og hvernig hægt sé að bregðast við á árangursríkan hátt. Með aðferðum atferlisfræðinnar er hægt að framkvæma hegðunarmat til að bera kennsl á orsakir og kveikjur krefjandi hegðunar hjá íbúum hjúkrunarheimilisins. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir er hægt að hanna og innleiða markviss inngrip sem draga úr erfiðri hegðun og stuðla að æskilegri hegðun.
Við vinnslu á hegðunarmati er stuðst við upplýsingar frá starfsfólki, aðstandendum og ekki síst íbúunum sjálfum, hvort heldur sem er með samtölum eða beinu áhorfi. Mikilvægt er að mál hvers og eins sé skoðað heildstætt með aðkomu fagaðila því er mikilvægt að unnið sé í þverfaglegu teymi.
Þegar búið er að hanna inngrip við hæfi þarf að kynna þau fyrir starfsfólki og þjálfa. Það fer eftir aðstæðum hvort starfsfólk kynnir inngripin hvert fyrir öðru eða hvort atferlisfræðingur fylgir þeim eftir til lykil starfsmanna. Eftirfylgd af hálfu atferlisfræðings er mjög mikilvæg til að tryggja að inngripum sé fylgt eftir og haldið áfram þar til þeirra er ekki lengur þörf. Stöðugur stuðningur og eftirfylgd tryggir að starfsfólk upplifir sig í stakk búið til verksins og það sé öruggt í hlutverkum sínum.
Ráðgjafinn
Fjalar Freyr er grunnskólakennari, með 60 eininga diplómunámi til meistarastigs í jákvæðri sálfræði og lauk MSc gráðu í hagnýtri atferlisgreiningu frá Háskólanum í Reykjavík 2024 og vottun sem ICE-ABA certified af fagfélagi atferlisfræðinga á Íslandi sem veitir honum réttindi til að starfa sem klínískur atferlisfræðingur.
